154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:40]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ekki á því að við eigum að loka landamærunum á Íslandi. Umræðan snýst ekki um það. Hún snýst um það að taka upp innra landamæraeftirlit, þ.e. að við tökum upp innra landamæraeftirlit á Schengen-svæðinu. Þetta snýst alls ekki um að loka landamærum á nokkurn einasta hátt heldur að taka upp innra landamæraeftirlit. Í dag er það Schengen, það eru ytri landamærin og það er ekkert innra eftirlit á landamærunum. Ég get ekki annað gert en að vitna í þingmann Samfylkingarinnar tala hér um fullveldisrétt Íslands sem er mikilvægur í þessu mál eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson kom inn á. Það er fullveldisréttur Íslands að ráða því hver er á íslensku yfirráðasvæði á hverjum tíma.

Við erum reyndar með skuldbindingar samkvæmt Schengen-samkomulaginu og það eru heimildir þar sem ríkin sem ég taldi upp í ræðu minni, m.a. Danmörk, Noregur og Svíþjóð, nota í dag, þ.e. þau taka upp innra landamæraeftirlit. Ég er eiginlega handviss um að við þurfum að gera það á einhverjum tímapunkti, kannski ekki núna í vor en við munum þurfa að gera á næsta ári eða í haust.

Ég er ekki að tala um að takmarka komu annarra Evrópuríkja. Við myndum haga þessum fullveldisrétti eins og okkur hentar best. Þjóðverjar hafa gert þetta á grundvelli álags á hælismóttökukerfi sitt og önnur ríki líka, þar á meðal Slóvenía, Ítalía, Frakkland og Þýskaland, eins og ég hef talið hér upp. Það er mikilvægt að við gerum það sama, vegna þess að það frumvarp sem hér er til umræðu mun ekki breyta aðdráttarafli Íslands, það mun ekki gera það. Við þurfum að ganga lengra og senda þau skilaboð að Ísland sé uppselt. Ísland er fullt. Við getum ekki tekið á móti 6.000 umsóknum á ári, við getum það ekki. Það búa 4.200 manns í Vestmannaeyjum. Í hittiðfyrra tókum við á móti 4.500 umsóknum, það eru 300 fleiri en búa í Vestmannaeyjum, í fyrra 4.200. Við getum ekki rekið heilt bæjarfélag fólks sem er að bíða eftir afgreiðslu umsókna sinna. Við getum það ekki, sama hvernig við reynum. (Forseti hringir.) Þetta hefur áhrif á skólakerfið, heilbrigðiskerfið og öll okkar kerfi sem við erum að reyna að halda utan um í þessu litla samfélagi.